Tuesday, March 13, 2007

Næturopnun í BT

Mig dreymdi um daginn að ég væri að vinna í BT. Svo sem ekkert óeðlilegt við það nema hvað að við vorum með opið til 02:00 eftir miðnætti! Venjulega var þetta svo sem ekkert vandamál en þetta kvöld var laugardagskvöld og af einhverjum ástæðum var búðin líka í Kringlunni, við hliðina á Kringlukránni. Þetta gerði það að verkum að búðin var full af rónum og fyllibyttum og meir en að segja það að hreinsa út og loka. Klukkan hálf þrjú var ennþá fullt af fólki inni og ekkert fararsnið á liðinu. Að auki stoppaði ég þjóf og gerði peningana hans upptæka og hann hótaði mér öllu illu. Að lokum gafst ég upp og sagðist vera farinn heim og eftir það er allt í móðu, enda kannski engin farsæl lausn á þessari undarlegu stöðu sem ég var í .

Testing, 1, 2, 3

Fyrsti pósturinn á þessari nýju síðu sem um leið er ákveðin tilraun af minni hálfu.

Stefnan er að skrá niður hérna alla vitleysuna sem mig dreymir en þeir sem kannast við mig ættu að vita hversu ofur steikta drauma mig dreymir oft og finnst mér full ástæða til að skrifa þetta niður áður en þetta fellur allt í gleymskunnar dá.

Þannig að ef einhver man eftir einhverju sem ég hef sagt honum að mig hafi dreymt einhvern tíman í fyrndinni endilega minnið mig á það svo að ég geti sett það hérna inn. Ég ætla að reyna að setja vitleysuna inn jafn óðum en reyna að koma með klassíska steypu inná milli þegar hún rifjast upp fyrir mér.

Ef einhver vill gera heiðarlega tilraun til að ráða þessa drauma á einhvern hátt (þó svo að ég trúi ekki á draumaráðningar) þá endilega smellið inn smellnum kommentum. Öllum Freud-ískum tilvísunum verður þó vísað beint til föðurhúsanna.